Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ákveðið að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Tillagan er samhljóða niðurstöðum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar, sem skilaði ráðherra lokaskýrslu sinni síðastliðinn föstudag.

„Það er góður áfangi að geta lagt fram þingsályktun um rammann á næstu dögum og ég er ánægð að allar tímasetningar stóðust hjá verkefnisstjórninni. Þá tel ég mikils virði að Alþingi fái niðurstöðunnar til efnislegrar meðferðar sem fyrst,“ er haft eftir Sigrúnu í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Í lokaskýrslu verkefnisstjórnar að 3. áfanga rammaáætlunar er lagt til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk, tíu virkjunarkostir fari í verndarflokk og tíu í biðflokk.

Í Viðskiptablaðinu í dag er ítarlega fjallað um rammaáætlun og þar kemur meðal annars fram að í skýrslunni var þjóðhagsleg hagkvæmni virkjunarkosta ekki metin þar sem forsendur til að gera það lágu ekki fyrir.