Ég tel að miklir hagsmunir séu í húfi og ákveðin vitundarvakning þurfi að eiga sér stað, en ég held líka að hún sé mögulega að eiga sér stað nú þegar,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í ræðustól á Alþingi þann 9. apríl í svari við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins um stöðu hugverkaréttinda í jarðvarmavinnslu. Í nýlegri skýrslu Árnason Faktor kom fram að erlendir aðilar sæki í auknum mæli um einkaleyfi á sviði jarðvarma hér á landi á meðan Íslendingar hafi lítið gert á því svið.

„Við þurfum að vera meðvituð um þá staðreynd að í þeirri þekkingu sem skapast hefur með rannsóknar- og þróunarstarfi á sviði jarðvarma hér á landi felast gríðarleg verðmæti. Hún hefur skapað Íslandi ákveðið samkeppnisforskot. Ef sú þekking er ekki vernduð geta aðrir aðilar hagnýtt sér afrakstur íslenskra rannsóknar- og þróunarvinnu án þess að nokkuð skili sér til Íslands,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagðist hafa rætt mögulegar leiðir til úrbóta við Borghildi Erlingsdóttur, forstjóra Einkaleyfastofunnar. „Niðurstaða okkar er sú að enn séu til staðar gríðarleg tækifæri til að hagnýta íslenskt hugvit í jarðvarmageiranum og ein sterkasta leiðin til þess sé með markvissri verndun hugverka. Slík verndun getur skapað grundvöll fyrir nýrri tekjulind, verið hvati fyrir aukið fjármagn í rannsóknar- og þróunarvinnu og verið mikilvægur hlekkur í útflutningi á íslensku hugviti,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .