Formlegur samstarfsvettvangur vegna viðskipta milli Íslands og Nígeríu er í burðarliðnum, eftir að utanríkisráðherra Nígeríu lýsti stuðningi við tillögu Lilju Alfreðsdóttur þess efnis á fundi þeirra í Abuja í Nígeríu. Markmiðið er að styrkja viðskiptasamband ríkjanna, auka gagnkvæm viðskipti og kanna möguleikann á útflutningi á íslensku hugviti til Nígeríu, m.a. tæknilausnum í fiskvinnslu og útgerð. Þetta kemur fram á veg utanríkisráðuneytisins.

Heimsókn Lilju Alfreðsdóttur til Nígeríu hófst í gær og henni lýkur á morgun. Hún mun ræða við fjóra ráðherra í ríkisstjórn Nígeríu um samskipti ríkjanna auk þess sem hún fundar með Seðlabankastjóra Nígeríu og hittir kaupendur íslenskra fiskafurða. Með í för eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem framleiða og selja þurrkaðar íslenskar sjávarafurðir til Nígeríu, sendiherra Íslands gagnvart Nígeríu (með aðsetur í London) og fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Nígería hefur um langt skeið verið afar mikilvægur markaður fyrir herta þorskhausa og annan þurrkaðan fisk frá Íslandi. Útflutningsverðmætin námu 13,8 milljörðum króna á síðasta ári og var Nígería þá annar stærsti útflutningsmarkaður íslenskra afurða utan Evrópu, næst á eftir Bandaríkjunum. Á þessu ári hefur útflutningurinn hins vegar dregist saman um ríflega 60% vegna efnahagsþrenginga og tollahækkana. Nígería glímir við mikinn efnahagsvanda sökum verðfalls á olíu, sem er helsta útflutningsvaran. Vegna verðfallsins hafa tekjur nígeríska ríkisins lækkað um 70%, skv. upplýsingum frá Seðlabanka Nígeríu.

Sjá nánar HÉR.