Í drögum að frumvarpi Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um skipulag haf- og strandsvæða er gert ráð fyrir að skipulagsvaldið verði í höndum svæðisráða sem ráðherra skipi í.

Ráðuneytið hefur sent drög að frumvarpi þess efnis til umsagnar, en þörfin fyrir því er sögð vera aukin starfsemi á haf og strandsvæðum, og vaxandi eftirspurn eftir athafnasvæðum meðal annars vegna fiskeldis og efnistöku.

Lagt er til að heildarstefna um skipulag verði mótuð í landskipulagsstefnu þar sem lagður verði grundvöllur að gerð strandsvæðisskipulags á ákveðnum strandsvæðum.

Svæðisráðin beri ábyrgð á gerð skipulagsins, en þau yrðu skipuð með fulltrúum viðkomandi ráðuneyta, aðliggjandi sveitarfélaga og sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Skipulagsstofnun er ætlað að annast gerð strandsvæðaskipulagsins í umboði svæðisráðanna. Hægt er að skila umsögnum um frumvarpið til og með 9. desember á netfangið [email protected], eða í bréfpósti til ráðuneytið.