Öllum hagsmunaaðilum á húsnæðismarkaði verður boðið til fundar þar sem fókusinn verður á að ná niður byggingarkostnaði og auka framboð íbúða.

Eygló Harðardóttir húsnæðismálaráðherra segir að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var í byrjun sumars til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sé skýrt kveðið á um að auka þurfi framboð húsnæðis og lækka byggingarkostnað.

„Til þess að framfylgja þessari skuldbindingu ríkisstjórnarinnar þá höfum við, ég, iðnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, í hyggju að fara af stað með samstarfsverkefni," segir Eygló. „Þar bjóðum við til samstarfs öllum þeim sem koma að húsnæðismarkaðnum eins og til dæmis fulltrúum sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, verktökum, þeim sem koma að hönnun og þeim koma að framleiðslu byggingarefnis. Við munum boða til stórs fundar þar sem markmiðið verður að leita svara við því hvernig við getum aukið framboð af húsnæði og lækkað byggingarkostnað á Íslandi."

Ekki er komin nákvæm dagsetning á fundinn en hugsanlegt er að hann verði haldinn 21. október.

„Öllum þeim sem áhuga hafa á þessu málefni verður boðin þátttaka. Þetta er einfaldlega svo stórt mál að það þurfa allir á húsnæðismarkaðnum að koma að þessu. Allir þurfa að vera tilbúnir að gera sitt til þess að unnt verði að lækka byggingarkostnað og auka framboð á húsnæði. Að ná byggingarkostnaði niður skiptir öllu máli því það er of dýrt að byggja í dag. Það er líka forsenda fyrir því að ég geti fengið allar þær íbúðir sem ég þarf á að halda í nýja félagslega leiguíbúðakerfið."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .