Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka segir frá því þegar hún var á nokkrum klukkutímum ráðin í starfið í nýju hlaðvarpi Íslandsbanka að tilefni þess að 10 ár eru í dag frá ráðningunni.

„Þetta gerðist allt mjög hratt og það var verið að tala við nokkra aðila. Ég var síðan boðuð upp í Fjármálaeftirlitið klukkan eitt að nóttu til og mér var þá boðið starfið,“ segir Birna sem ekki hefur áður sagt frá þessum fyrstu stundum í starfi.

„Ég átti síðan að koma með skipurit að nýjum banka klukkan átta morguninn eftir niður í ráðuneyti. Ég fór því aftur niður í banka og kallaði til mín gott fólk um nóttina sem ég treysti og vildi hafa með mér í þessari vegferð. Þegar við vorum búin að raða þessu saman fór ég heim í sturtu og mætti í ráðuneytið klukkan átta morguninn eftir.“

Stærra verkefni en bjóst við

Birna segist hafa heyrt af því að ráða ætti nýjan bankastjóra í kjölfar neyðarlaganna og hafði hún áhuga á því að fara í viðtal vegna starfsins. „Ég var á þeim tíma í framkvæmdastjórn og var búin að stjórna íslensku einingunni, viðskiptabankanum á Íslandi, sem átti að vera megininntakið í nýja bankanum og mér fannst ég því vel koma til greina í starfið,“ segir Birna.

„Þetta voru skrýtnir tímar, ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir því hvað ég var að taka að mér. Ég vissi að þetta væri stórt verkefni en vandamálið var stærra og meira en ég bjóst við. Ég hafði reynslu af bankarekstri  enda alltaf verið í banka en það var fullt af nýjum hlutum sem við vorum að takast á við. Við vorum að meta efnahagsreikning upp á nýtt. Vorum að meta hvað við værum að taka yfir í nýjum banka og þetta var flókið verkefni en ég var sem betur fer með frábært teymi með mér.“