Laurent Lavigne du Caded, sem ráðinn hefur verið sem forstjóri Gamma Capital Management í Bandaríkjunum, hefur síðustu fjögur ár starfað sem aðalráðgjafi hjá Dentons US LLP, en fyrirtækið er stærsta lögfræðifyrirtæki í heimi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í nóvember stefndi Gamma á það að opna skrifstofu í New York í byrjun ársins, en þær verða á sjöundu hæð við hús númer 305 við Broadway, sem er á horni þess sögufræga strætis og Duane götu.

Þar áður starfaði du Caded sem aðstoðarforstjóri Taylor-DeJongh, sem er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki í fjármálum sem staðsett er í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Þar starfaði hann á árunum 2009 til 2012 en þar áður starfaði hann sem forstjóri eignarstýringarfyrirtækisins Amwal Qatar á milli júlí 2007 og desember 2008, sem er að öllu leiti í eigu Hanadi Nasser Bin Khaled Al Thani, en hún ber titilinn Sheikha.

Þar áður starfaði hann fyrir Dubai Islamic Bank og stofnaði hann og var í framkvæmdastjórn Alternative Finance Partners janúar 1990 og desember 2004. Einnig hefur hann starfað SPP Société Parisienna de Placements, JP Morgan og í franska sendiráðinu í Abu Dhabi.

Laurent lærði alþjóðaviðskipti við háskólann í Paris Dauphine, og er hann með MBA gráðu frá Neoma viðskiptaskólanum. Þetta kemur fram á LinkedIn síðu hans .