Vefsíður Stjórnarráðssins og allra ráðuneytanna lágu niður í þrettán tíma eftir árás Anonymous samtakanna í gærkvöldi. Árásin er hluti af aðgerðum samtakanna sem nefnast Operation Killing Bay en þau birtu myndand fyrir þremur dögum þar sem árásin var boðuð. Þetta kemur fram á vefsíðu RÚV .

Í myndbandinu eru hvalveiðar Íslendinga fordæmdar og heita liðsmenn samtakanna að berjast gegn því sem þeir kalla yfirvofandi útrýmingu hvala af hálfu Íslendinga.

Í samtali við RÚV um málið segir Ragnheiður M. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Eplica, að netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar hafi verið kölluð til. Hún segir að hakkararnir hafi ekki reynt að stela gögnum heldur hafi of mikið álag verið sett á vefina sem leiddi til þess að þeir lögðust niður.

Samtökin hafa boðað til árása á frekari síðar. Á meðal þeirra er vefsíða HB Granda, Íslenska reðursafnsins og Visit Iceland svpo nokkrar séu nefndar.