Alþjóðahafrannsóknastofnunin (ICES) leggur til verulega aukning aflamarks í nokkrum deilistofnum á næsta ári. Lagt er til að ráðlagt aflamark í norsk-íslensku síldinni aukist um 104% miðað við ráðgjöf ICES fyrir árið 2016. Þá er eykst ráðgjöfin um aflamark í kolmunna um nær 75% milli ára og sömuleiðis er lagt til hærra aflamar í makríl. Þetta kemur fram í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar .

Nýlokið er fundi ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins þar sem m.a. var veitt ráðgjöf um heildarafla norsk-íslenskrar vorgotssíldar, kolmunna, makríls og úthafskarfa í Norðaustur-Atlantshafi fyrir árið 2017. Íslendingar stunda umtalsverðar veiðar úr þeim stofnum. Nánar má lesa um ráðgjöfina vef ICES .

Norsk-íslensk vorgotssíld

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) ráðleggur í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja að afli ársins 2017 verði ekki meiri en 646 þúsund tonn sem er 104% aukning frá ráðlögðum afla fyrir árið 2016.

Hrygningarstofninn hefur farið minnkandi síðan 2009. Það ár var hann í hámarki vegna fjögurra stórra árganga frá árabilinu 1998-2004. Léleg nýliðun síðan 2004 er megin skýringin á minnkandi stofnstærð. Þótt ennþá sé nokkur óvissa um stærð árganga eftir 2012 er fátt sem bendir til þess að stór árgangur gangi inn í veiðistofninn á næstu árum.

Samkvæmt stofnmatinu í ár er hrygningarstofninn árið 2015 nú talinn hafa verið þriðjungi stærri en mat síðasta árs benti til. Minnkun stofnsins á undanförnum árum hafi því verið hægari en áður var metið. Eins er stofninn í upphafi árs 2017 metinn tæplega 40% stærri en í fyrri úttekt. Hærra mat nú skýrist aðallega af háum stofnvísitölum frá leiðangri á hrygningarslóð við Noreg árin 2015 og 2016.

Aflamark árið 2016 var 317 þúsund tonn samkvæmt ráðgjöf ICES, en ekki náðist samstaða strandríkja um skiptingu aflaheimilda og er gert ráð fyrir að aflinn verði 377 þúsund tonn. Íslenskum skipum var úthlutað 46 þúsund tonnum fyrir árið 2016 samkvæmt ákvörðun stjórnvalda.

Kolmunni

ICES leggur til að kolmunnaafli ársins 2017 verði innan við 1342 þúsund tonn. Ráðgjöfin miðar við þá veiðidánartölu (Fmsy) sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið.

Hrygningarstofn kolmunna hefur stækkað frá árinu 2010 og er ofan við aðgerðarmörk (MSY Btrigger = 2,25 milljón tonn). Nýliðun er metin yfir meðallagi en með mikilli óvissu.

Ráðgjöfin fyrir árið 2017 er umtalsvert hærri en hún var fyrir árið 2016 (776 þúsund tonn). Þetta er aðallega vegna hærra mats á árgöngum 2013 og 2014 í stofnmati ársins 2016 heldur en árið 2015.

Ekki hefur enn náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu, en áætlað er að heildaraflinn í ár verði tæp 1,150 milljón tonn, þar af afli íslenskra skipa um 164 þúsund tonn.

Makríll

ICES ráðleggur að afli ársins 2017 verði ekki meiri en 944 þúsund tonn. Er sú ráðgjöf í samræmi við nýtingarstefnu (FMSY) sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið.

Hrygningarstofninn hefur vaxið frá árinu 2006 og var metinn tæp 5 milljón tonn árið 2016.

Frá árinu 2006 hefur makríll gengið á Íslandsmið og í fjölþjóðlegum togleiðangri sumarið 2016 mældist meira en nokkru sinni áður af honum innan íslenskrar lögsögu. Ástæður þessa hafa verið tengdar stækkun stofnsins, hlýnun sjávar og fæðuframboði. Alþjóðlegur eggjaleiðangur sumarið 2016 sýndi norðlægari hrygningu en nokkru sinni fyrr. Þessir tveir leiðangrar gefa nokkuð misvísandi upplýsingar um þróun stofnsins.

Ráðgjöf ICES um aflamark í makríl fyrir árið 2016 var að aflinn yrði ekki meiri en 667 þúsund tonn en sú ráðgjöf var endurskoðuð fyrr í þessum mánuði og hækkuð í 774 þúsund tonn.

Ekki hefur náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflans með þeim afleiðingum að veitt hefur verið langt umfram ráðgjöf ICES. ICES gerir ráð fyrir því að heildaraflinn árið 2016 verði um 1,05 milljón tonn. Aflaheimildir íslenskra skipa fyrir árið 2016 voru 152 þúsund tonn samkvæmt ákvörðun íslenskra stjórnvalda, auk þess sem óveitt var af aflamarki ársins 2015.

Úthafskarfi – neðri stofn

ICES leggur til að engar veiðar verði stundaðar úr neðri stofni úthafskarfa á árunum 2017 og 2018. Ráðgjöfin miðar við þá veiðidánartölu (FMSY) sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið.

ICES hefur á undanförnum árum lagt til að engar veiðar yrðu stundaðar úr efri stofni úthafskarfa (sá sem veiðist á minna en 400 metra dýpi) þar sem ástand þess stofns versnaði mikið undir lok síðustu aldar og hefur stofninn mælst mjög lítill í leiðöngrum undanfarna 2 áratugi. Því er nú svo komið að ICES leggur til að engar karfaveiðar verði stundaðar í Grænlandshafi og nærliggjandi hafsvæðum.