Eitt stærsta vandamálið sem öll fyrirtæki glíma við eru ráðningar. Lausnir á markaðnum í dag eru ekki að sinna nýjum þörfum sem eru komnar til vegna uppgangs samfélagsmiðla og nýrra samskiptalausna innan fyrirtækja á borð við Facebook, Workplace og Slack,“ segir Kristján Kristjánsson, einn af stofnendum 50skills.com .

Hann segir að fyrirtækið sé búið að þróa hugbúnað sem gerir fyrirtækjum kleift að stjórna öllu ráðningarferli umsækjenda með þægilegri hætti en áður. Meðal annars fá fyrirtækin sérsniðna ráðningarsíðu og tól og tæki sem tryggja frábæra upplifun fyrir umsækjendur jafnt sem starfsmenn sem koma að ráðningum. „Við hjálpum þeim með allan ferilinn; allt frá því að einstaklingur sækir um og yfir í ráðningu á starfsmanni. Það sem við sérhæfum okkur í eru nokkrir þættir. Einn af þeim er að passa að upplifun umsækjenda sé alltaf eins ánægjuleg og ákjósanlegt er,“ segir Kristján.

„Það sem gerir þessa lausn frábrugðna öðrum er að við hjálpum fyrirtækjunum að hvetja alla starfsmenn fyrirtækisins til að taka þátt í ráðningarferlinu,“ bætir hann við.

Tækifæri til umbóta

Þegar Kristján er spurður að því hvernig hugmyndin kviknaði sagði hann: „Eftir að hafa verið margoft spurðir hvort við þekktum til öflugra einstaklinga í ýmis störf, ákváðum við að skilja vandamálið betur með því að rýna í hvaða ferla, tól og tæki fyrirtæki væru almennt að nota þegar kæmi að ráðningum. Okkur sýndist vera tækifæri fyrir verulegar umbætur, og ákváðum því að útbúa frumgerð af hugmynd sem var kynnt fyrir reyndum aðilum sem eru virkir í ráðningum. Eftir frábær viðbrögð ákváðum við að slá til, klára fullbúna vöru og gera verkefnið að veruleika,“ segir hann.

Kristján er best þekktur fyrir þátttöku sína í íslenska frumkvöðlaumhverfinu og starfaði hann áður sem framkvæmdastjóri hjá Meniga og Icelandic Startups (þá Klak Innovit). Eftir að hafa fylgst með fjölmörgum fyrirtækjum vaxa ört, tók hann eftir því að mörg lítil og meðalstór fyrirtæki áttu í basli með ráðningar. „Þegar ég gekk til liðs við Meniga var fyrirtækið til að mynda með á fjórða tug starfsmanna sem óx upp í um 100 starfsmenn á skömmum tíma. Það var afar lærdómsríkt ferli sem átti stóran hlut í að móta hugmyndina.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .