Þann 10. janúar kl.12:00 rann út tímafrestur til þess að senda inn fræðigrein fyrir EURAM (European Academy of Management) ráðstefnuna sem haldin verður  20 – 23. júní í Háskóla Íslands. Fleiri en 2.000 greinar byggðar á rannsóknum í viðskiptafræði frá öllum heimshornum voru sendar inn. Þetta er í 18 skiptið sem ráðstefnan er haldin og hefur ráðstefnan aldrei fengið fleiri innsendar fræðigreinar.

Í fyrra var ráðstefnan í Glasgow og árið 2016 í París en sú ráðstefna fékk 1.470 innsendar greinar sem var metþátttaka. Ráðstefnan sem haldin verður á Íslandi slær þó öll met með yfir 2000 fræðigreinum. Það er 36% aukning af innsendum fræðigreinum frá því í París og næstum tvöfalt fleiri greinar in í Glasgow.

Samfélag fræðimanna frá næstum 50 löndum

European Academy of Management (EURAM) er samfélag fræðimanna frá 49 löndum og hátt í hundrað háskóla, sem stofnað var árið 2001. Hin árlega ráðstefna EURAM er aðalviðburðum EURAM á ári hverju og er jafnan ein stærsta og virtasta ráðstefna Evrópu á sviði viðskiptafræði.

Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er: Research in Action – Accelerating Knowledge Creation in Management. Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands samdi sérstaklega við EURAM um að eiga þemað sem gefur háskólanum tækifæri til að halda árlega ráðstefnu með sama þema og með stuðningi EURAM.

Vilja auka samvinnu við viðskiptalífið

„Þetta er frábær árangur, afrakstur góðrar alþjóðlegrar markaðssetningar. Þetta stefnir í að verða langstærsta EURAM ráðstefna frá upphafi“ segir dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, sem er ráðstefnustjóri.

„Ástæðan fyrir því að við lögðum í þá miklu vinnu að fá þessa virtu ráðstefnu til Íslands var að auka alþjóðlega samvinnu og rannsóknir við Háskóla Íslands. Jafnframt viljum við nýta ráðstefnuna til þess að byggja upp aukna samvinnu á milli akademíunnar og viðskiptalífsins.

Það er algert grundvallaratriði í uppbyggingu á þekkingarsamfélagi og verðmætasköpun á Íslandi að háskólinn og viðskiptalífið taki höndum saman. Þess vegna höfum við kallað eftir því að viðskiptalífið sýni viljan í verki og taki þátt í þessu verkefni með okkur.

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá ávinninginn af því að fá tvö þúsund viðurkennda fræðimenn,  allt frá Standford University til University of Melbourne, til þess að skrifa fræðigreinar tengdar þema sem snýst um að tengja betur þekkingarsköpun í atvinnulífinu og akademíunni.. Þetta er fólkið sem mótar þær aðferðir og skilning sem stjórnendur og þekkingarstarfsmenn næstu ára og áratuga munu vinna eftir.“

Her af fræðimönnum

Eyþór bendir þó á að fjöldi innsendra fræðigreina segir ekki alla söguna um stærð ráðstefnunnar þar sem nú fer í gang ferli þar sem farið er yfir allar greinarnar og athugað hvort þær standist formkröfur ráðstefnunnar. „Eftir það er hver einasta grein ritrýnd af 2 – 3 fræðimönnum sem meta hvort að greinarnar eigi erindi á ráðstefnuna,“ segir Eyþór.

„Þetta þýðir að við höfum her af fræðimönnum út um allan heim sem mun hjálpa okkur að lesa allar greinarnar og meta, þannig að við getum valið þær greinar sem munu verða kynntar á ráðstefnunni. Í febrúar höfum við drög af dagskrá ráðstefnunnar sem miðast ekki einungis við fræðimenn heldur líka þekkingarstarfsmenn framtíðarinnar.

Við munum þess vegna leggja áherslu á að stjórnendur og lykilstarfsmenn nýti sér þetta einstaka tækifæri til þess að læra um það nýjasta sem er að gerast í viðskiptafræði.“