Leiðtogar úr íslensku atvinnulífi héldu erindi um mikilvægi vörumerkja og verðmæta þeirra á morgunverðarfundi fyrirtækisins brandr í Arion banka í morgun.

Um 180 gestir fylltu fundarsal Arion banka og hlýddu á fyrirlesarana sem voru þau Finnur Oddsson, forstjóri Origo, Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel, Halldór Harðarson, markaðsstjóri Arion banka og Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Fundarstjóri var Dr. Friðrik Larsen, framkvæmdastjóri brandr, sem hélt fundinn.

Þau voru sammála um mikilvægi vörumerkja en almennt séð væri ekki nógu mikil áhersla á vörumerki í fyrirtækjum og að þörf væri á að fjárfesta meira í þeim. Friðrik nefndi að vörumerkjamál væru mannauðsmál því vinna við mörkun þeirra byrjaði alltaf inn í fyrirtækinu sjálfu. Hann sagði jafnframt að vel ígrunduð vörumerki skila marktækari árangri.

Halldór sagði aukna samkeppni í fjármálageiranum og því væri mikilvægt fyrir fjármálafyrirtæki að vera með öflugt vörumerki og skapa traust til að geta staðist samkeppnina. „Aðgreiningin er sífellt erfiðari því það eru meiri gæði og úrval fyrir neytendur. Vörumerkið þarf stefnumótun, fókus, menningu og skipulag þarf til að ná árangri,“ sagði Halldór.

„Hvernig upplifi ég sjálfa mig“

Finnur lýsti sameiningarferlinu þegar þrjú fyrirtæki urðu að einu vörumerki Origo og hversu stór hluti fór í að vinna með starfsfólkinu.

„Breytingin var gerð eftir ítarlega undirbúningsvinnu sem tók langan tíma. Breytingin var gerð til að einfalda skipulag fyrirtækisins, auka hagkvæmni í rekstri og gera fyrirtækinu kleift að koma skilaboðum til viðskiptavina með skilvirkari hætti. Lykilatriði í sameiningunni og nýju vörumerki voru sameiginleg gildi, stefnumótun og mörkunarvinna," sagði Finnur m.a. í sínu erindi.

„Hvernig upplifi ég sjálfa mig sem brand. Hvernig lítur fólk á mig sem brand,“ sagði Guðbjörg m.a. í sínum fyrirlestri og bætti við að það skipti mjög miklu máli hvernig unnið væri með vörumerkið.

,,Allir starfsmenn fyrirtækisins eru sendiherrar vörumerkisins. Til að ná sem bestum árangri þarf að skilja markaðinn og sýnin þarf að vera skýr. Ef fólk trúir því að við ætlum að breyta heiminum þá koma fleiri með okkur.“

„Branding er ekki hvernig þú auglýsir heldur hvað þú gerir og þú segir við starfsmennina í fyrirtækinu og viðskiptavinina. Þetta snýst um stefnu og viðskiptahugmynd og listina að hámarka ábata af vörumerki,“ sagði Þórarinn.

Vörumerkið hjálpar að halda í viðskiptavini

Í pallborðsumræðum kom fram hjá Finni að Origo væri nú ofar í huga viðskiptavina sem gerði þeim auðvelt að halda þeim betur og það væri auðveldara að draga nýja viðskiptavini inn. Halldór nefndi að fjármálageirinn væri að fara í gegnum svipað ferli og opnast svipað og fjarskiptageirinn hefði gert fyrir tuttugu árum og það væri mikilvægt fyrir vörumerki í geiranum að byggja upp traust.

Þórarinn taldi að þar sem IKEA hefði byggt upp vörumerkið og sambandið við viðskiptavininn myndi það koma til með að auka hlutdeild fyrirtækisins á markaði í gegnum næstu niðursveiflu. Guðbjörg taldi að niðursveiflur hafi vissulega áhrif á eftirspurn en það væri mikilvægt fyrir vörumerki að vita hvað þau standa fyrir og eyða peningum af skynsemi en gæta þess að viðhalda vörumerkinu og ganga í gegnum hagsveifluna bein í baki og fara ekki í niðurskurð í óðagoti.

Finnur, Halldór, Friðrik, Guðbjörg og Þórarinn héldu erindi um mikilvægi vörumerkja og verðmæta þeirra.
Finnur, Halldór, Friðrik, Guðbjörg og Þórarinn héldu erindi um mikilvægi vörumerkja og verðmæta þeirra.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Finnur, Halldór, Friðrik, Guðbjörg og Þórarinn héldu erindi um mikilvægi vörumerkja og verðmæta þeirra.