Hinn árlegi Strategíudagur verður haldinn 7. september næstkomandi á Reykjavík Natura. Á ráðstefnunni munu stjórnendur Landsbankans, VÍS, Já, Nettó og AHA gera grein fyrir vegferð sinna fyrirtækja. Lögð verður áhersla á að greina frá aðferðafræðinni við innleiðingu á starfrænni stefnu auk þess sem stjórnendur munu greina frá þeim árangri og áskorunum sem þeir hafa fengist við, hvort heldur við innleiðingu á stefnunni en einnig við áframhaldandi framgang hennar og þróun.

Kominn tími til að ræða vegferðina

„Við höfum haldið Strategíudaginn árlega frá því að við stofnuðum fyrirtækið árið 2014,“ segir Helga Hlín Hákonardóttir, einn eigenda ráðgjafarfyrirtækisins Strategíu. „Þetta er hluti af okkar markaðsstarfi að setja saman ráðstefnur sem taka á málefnum líðandi stundar og skila einhverjum virðisauka til okkar kúnna og samfélagsins. Á þessum ráðstefnum höfum við fjallað um stjórnarhætti, verkaskiptingu á milli fjárfesta stjórna og forstjóra og síðan höfum við verið með ráðstefnu um upplýsingaflæðið á milli þessara hópa og hvar upplýsingarnar mega liggja og hvar ekki. Núna ákváðum við að fara yfir á þessa stafrænu hlið sem er meira stefnumótunarmegin,“ segir Helga

„Á ráðstefnunni verðum við með fjögur rótgróin fyrirtæki sem hafa öll farið af stað í þessa stafrænu vegferð. Við ætlum að fá að heyra hvað það er sem gerist þegar búið er að ákveða að fyrirtæki verði stafrænt, hvernig sú ákvörðun er tekin og hvernig tekst að innleiða hana. Punkturinn með ráðstefnunni er að þetta málefni hefur verið mikið í umræðunni en okkur fannst kominn tími á að ræða vegferðina hjá þeim sem hafa hafið hana og hvað hægt er að læra af þeim stjórnendum.“

Snýr að hugarheimi viðskiptavinarins

Spurð hvað felist nákvæmlega í stafrænni stefnu segir Helga að hún snúi í megindráttum að þvi að viðskiptamódel fyrirtækja snúi að viðskiptavininum sjálfum og hans sýn á vörur og þjónustu viðkomandi fyrirtækis og hans upplifun. „Þetta kemur í stað þess að byggja viðskiptin upp út frá kerfum og starfsháttum fyrirtækisins sjálfs. Þarna erum við meðal annars að sjá fullt af smáforritum, viðskipti í gegnum netið, netspjall og fleira. Markmiðið er að færa þjónustuna nær hugarheimi viðskiptavinarins. Þar að auki er verið að nota stafrænu tæknina í samskiptum og greiningu upplýsinga til að veita réttum viðskiptavinum rétta þjónustu. Það er eiginlega best að bera þetta saman við gömlu fyrirtækin á móti þeim nýjum. Gömlu fyrirtækin standa svolítið í því að reyna að uppgötva sig upp á nýtt og poppa sig upp gagnvart nýjum fyrirtækjum,“ segir Helga.