Íslenska nýsköpunarfréttaveitan Northstack stóð á dögunum fyrir viðburði sem kallast Silicon Drinkabout Reykjavik. Hugmyndin er að erlendri fyrirmynd og hefur verið haldin í ýmsum stórborgum á borð við London, Sao Paolo, Berlín og Toronto. Viðburðurinn fór fram á Loft hostel síðast liðinn föstudag og að sögn skipuleggjenda var markmiðið að gefa aðilum innan nýsköpunarsenunnar, sem og öðrum, tækifæri til að hittast og ræða saman í afslöppuðu umhverfi.

Afslappað umhverfi

„Frá því að við stofnuðum Northstack.is hefur það verið eitt af markmiðum okkar að setja á fót reglulega viðburði fyrir fólk sem starfa innan tækni- og nýsköpunargeirans þar sem það getur hist eftir vinnu og spjallað yfir bjór,“ útskýrir Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, einn af stofnendum Northstack.

„Við byrjuðum á því að halda einskonar tilraunarkvöld fyrir rúmum mánuði síðan sem fékk góðar viðtökur. Í kjölfarið settum við okkur svo í samband við viðburðafyrirtæki í London sem hefur staðið fyrir Silicon Drinkabout í borgum víðsvegar um heiminn og fengum leyfi til að halda þetta á Íslandi. Við byrjuðum því formlega á föstudaginn í síðustu viku og auglýstum þetta hér á landi auk þess sem breska fyrirtækið sendi út tilkynningar. Hugmyndin að baki viðburðinum er í raun ekki að búa til vettvang fyrir einhverskonar öfluga tengslamyndun eins og á ráðstefnum heldur á umhverfið að vera mjög afslappað. Þú kíkir bara við ef þig langar að fá þér bjór og spjalla við fólk um það sem er að gerast,“ segir Kristinn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Áhrif styrkingar krónunnar á verðlag í verslunum.
  • Formaður Landssambands kúabænda gagnrýnir nálgun stjórnmálaflokka á samkeppnisundaþágur.
  • Ráðstefna Gallup um starfsmannamál tekin fyrir.
  • Mikla uppbyggingu í kringum starfsemi Keflavíkurflugvallar.
  • Umfjöllun um 2.300 niðurgreiddar leiguíbúðir sem verða reistar á næstu árum.
  • Fjallað um aðstæður á alþjóðlegum fjármálamarkaði.
  • Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, tekinn tali um horfur í geiranum.
  • Fjallað er um einn elsta og fjölmennasta fjárfestingarsjóð landsins.
  • Karl Kristján Ásgeirsson, rekstrarstjóri 3X Technology á Ísafirði er í ítarlegu viðtali.
  • Formaður Veiðifélags Laxár í Aðaldal spjallar um stórlaxasumar í Aðaldalnum.
  • Fjallað er um rafbókavæðingu á háskólastigi.
  • Verslunin Vísir varð á dögunum formlega gjaldþrota eftir rúmlega 100 ára sögu.
  • Jóhann Gunnar Jóhannsson, tekinn tali, en hann var ráðinn sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Ölgerðarinnar.