Viðskiptablaðið fjallaði í síðasta mánuði um stofnun sérstaks þró­unarfélags um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Þar kom meðal annars fram að hugmyndin hefði verið kynnt fjárfestum undir vinnuheitinu Lava Express, að kostnaðaráætlun vegna framkvæmdarinnar hljóði upp á 102,5 milljarða króna og að stefnt væri að því að eiginfjárframlag næmi um 20 prósentum. Jafnframt kom fram að verkefnið hefði verið kynnt Evrópska fjárfestingabankanum.

Cristian Popa, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópska fjárfestingabankans, staðfestir að viðræður um fjármögnun lestarinnar séu í gangi.

Hraðlest er lykilatriði

„Ég held að hraðlest sé lykilatriði með hliðsjón af umfangi ferðaþjónustunnar á Íslandi og með tilliti til vaxtarins í ferðamennskunni, sem er frekar tilkomumikill. Þar eru augljóslega ákveðnir vaxtarverkir – það tók okkur talsverðan tíma að komast frá Keflavík til Reykjavíkur,“ segir Popa í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann bætir við að hann telji að hagkerfið geti ráðið mun betur við vöxtinn í ferðaþjónustunni þegar hraðlestin er komin í gagnið. Að­spurður segist hann ekki geta greint frá stöðu viðræðna um fluglestina að öðru leyti en að þær séu hafnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .