Alþjóðleg ráðstefna um sjálfbært fiskeldi var haldin sl. föstudag í Puerto Montt Síle í tengslum við fiskeldissýninguna AquaSur. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði ráðstefnuna með erindi um viðfangsefni og tækifæri í íslensku fiskeldi. Þetta kemur fram á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í erindi sínu gerði Sigurður Ingi grein fyrir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í íslensku fiskeldi undanfarin misseri og lagði áherslu á mikilvægi þess að læra af mistökum fortíðar og reynslu annarra landa. Íslensk stjórnvöld hafi lagt áherslu á að ýta undir vöxt fiskeldis en það verði ekki gert nema með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

Ráðherrann gerði grein fyrir þeim reglum og aðgerðum sem eru í gildi í þessum efnum, eins og víðtækt bann við fiskeldi í sjó sem liggur að veiðiám og að unnið sé að gerð reglugerðar um búnað fiskeldisstöðva sem felur í sér strangar kröfur með það að markmiði að leitast við að koma í veg fyrir slysasleppingar. Í erindi sínu kom ráðherra einnig inn á að ljóst sé að huga þurfi frekar að nokkrum þáttum sem lúta að frekari vexti fiskeldis á Íslandi eins og uppbyggingu seiðastöðva, þjónustubáta, samgöngum við eldissvæðin og strandsvæðaskipulagi.

Ráðstefnuna sóttu aðilar frá helstu fiskeldislöndum heims, opinberir aðilar og umhverfissamtök. Í fyrirlestrum og umræðum var fjallað um tækifæri sem felast í fiskeldi og mikilvægi fiskeldis til að auka fæðuframboð í heiminum.