Starfsmenn Google ræddu um að gera breytingar á leitarvél fyrirtækisins til að bregðast við farbanni Donalds Trump Bandaríkjaforseta í janúar á síðasta ári. Fyrirtækið segir þó engu slíku hafa verið hrint í framkvæmd.

Tölvupóstsamskipti sem Wall Street Journal hefur undir höndum sýna uppástungur starfsmanna um hvernig þeir geti „hagrætt“ ákveðnum þáttum leitarvélarinnar til að stemma stigu við því sem þeir álitu vera „bjagaðar leitarniðurstöður sem einkennast af fordómum gagnvart Íslam þegar leitað er að orðum eins og ‚Íslam‘, ‚Múslimi‘ og ‚Íran‘“ og „fordómafullar og bjagaðar niðurstöður þegar leitað er að orðum eins og ‚Mexíkó‘, og ‚Rómanskur‘ (Latino / Hispanic).“

Í tölvupóstsamskiptunum kom þó fram að varhugavert væri fyrir fyrirtækið að skipta sér af stjórnmálum. Talsmaður Google sagði fyrirtækið „aldrei hafa átt við leitarniðurstöður eða breytt neinni af vörum fyrirtækisins til að styðja við tiltekna pólitíska hugmyndafræði.“

WSJ segir það ljóst að málið muni kynda undir gagnrýni Repúblíkana á Google, þess efnis að fyrirtækið kæfi niður íhaldssöm sjónarmið og gefi málstað andstæðinga þeirra undir fótinn.