Mokveiði hefur verið á rækju við Snæfellsnes og veiðin á úthafsrækju hefur ennfremur verið góð. Jón Árnason, skipstjóri á Vestra BA, segir í samtali við Fiskifréttir að veiðin hafi ekki verið jafngóð frá því hann hóf rækjuveiðar fyrir fjórum árum.

Vestri BA hefur nú klárað kvóta sinn í rækju við Snæfellsnes. Aflinn í Kolluálnum fóru upp í 12 tonn á sólarhring og í einum róðri fengu þeir 30 tonn eftir 3 daga.

Vestri hefur einnig stundað veiðar á úthafsrækju í vor. Jón segir að meðalveiði á úthaldsdag hafi verið 3,6 tonn í fyrra en meðalveiðin nú sé rétt yfir 5 tonn. „Veiðin er mjög góð víða. Það er nánast sama hvar borið er niður úti fyrir Norðurlandinu, alls staðar er rækja í mismiklum mæli þó. Mín tilfinning er sú að rækjan, bæði í úthafinu og við Snæfellsnes, sé á uppleið sem er mjög jákvætt,“ segir Jón.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.