Fasteignagjöld af tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu nema 332 milljónum króna á ári. Þetta er hærri upphæð en tíu þekkt menningarhús landsins greiða ásamt íþróttahúsunum Laugardalshöll og Egilshöll. Húsin tólf eru þrátt fyrir þetta stærri samanlagt en Harpa. Rifjað er upp í Fréttablaðinu í dag, að Pétur J. Eiriksson, stjórnarformaður Portusar, rekstrarfélags Hörpu, hafi sagt há fasteignagjöld skýra stóran hluta af 407 milljóna króna taprekstri Hörpu í ár.

S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, sagði við Fréttablaðið fyrir viku ekki hægt að breyta fasteignagjöldunum. Álagning fasteignagjalda væri ekki geðþóttaákvörðun. Hann sagði jafnframt húsið stórt og greiða fasteignagjöld í samræmi við það.

Ríki og borg eiga Hörpu saman.

Fréttablaðið er sagt hafa heimildir fyrir því að ein af þeim hugmyndum sem nú séu til umræðu hjá ríkinu sé að borgin auki hlutdeild sína í rekstrarkostnaði hússins sem hærri tekjum nemur. Gjöldin eru 150 til 200 milljónum krónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.