Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks, félags sem undirbýr nú virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum segir ástandið í raforkumálum á Vestfjörðum bágborið. Í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 sagði hann það skelfilega staðreynd að nýjasta orkuöflunin á Vestfjörðum sem dísilknúin. Ásgeir þvertekur jafnframt fyrir það að félagið hyggist selja raforkuna í Hvalárvirkjun til United Silicon í Helguvík.

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Það var Vesturverk sem hóf undirbúning virkjunarinnar og í kjölfarið eignaðist HS Orka 70% hlut í Vesturverki. Forstjóri HS Orku segir að félagið sé að feta sig inn á þá braut að virkja með vatnsaflsvirkjunum, en ekki einungis jarðvarma.

Hann segir að ef virkjunin verður á annað borð byggð og línurnar lagðar, þá fái Vestfirðingar þessa orku. Þó sé það ekki fyrirséð að ríkið fari að veita stóra styrki til að laga ástandið. „Leiðin til þess að gera þetta með sjálfbærum hætti efnahagslega er að nýta auðlindir Vestfjarða, auka vinnsluna innan svæðisins,“ sagði Ásgeir.

Ásgeir segir einnig að fullyrðingar um að HS Orku vanti orku til Helguvíkur einfaldlega rangar, að HS Orka sé ekki með samning við United Silicon í Helguvík, selji fyrirtækinu ekki orku og hafi ekki áform um það. Burtséð frá því að Hvalárvirkjum með sín 55 megavött gæti ekki þjónað stóriðju, þó að eitthvert stóriðjufyrirtæki gæti vissulega keypt hluta orkunnar.

Það vantar orku

Ásgeir sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í mars að það þurfi að virkja meira til að uppfylla þarfir samfélagsins. Hann sagði þá stöðuna á orkumarkaðnum þannig að fyrirtækið gæti ekki orðið við beiðnum viðskiptavina á þeirri orku sem þeir vilji kaupa, HS Orka eigi hana ekki til.

„Það vantar meiri orku. Orkukerfi landsins er mikið til fullnýtt. Það þarf að virkja meira, ef við viljum uppfylla þarfir samfélagsins. Það þarf að efla flutningskerfið líka, það er mjög takmarkandi þáttur víða. Stundum er orkuöflun takmarkandi, stundum er orkuflutningurinn takmarkandi, það fer eftir hvar á landinu þú ert. Það eru stórir þættir sem þarf að vinna í og þarf að huga að orkustefnu Íslands. Ekki bara rammaáætlunin heldur hvert við viljum stefna. Okkur finnst þessu vera ábótavant,“ sagði Ásgeir í mars.