Erfiðara gæti reynst fyrir Seðlabanka Íslands að framfylgja lögum sem banna kaup á erlendum gjaldeyri þegar markaðstorg með rafmyntir fara að taka við íslenskum krónum í skiptum fyrir slíkar myntir hér á landi. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá þann 17. júlí síðastliðinn stendur til að stofna að minnsta kosti tvö markaðstorg með rafmyntir hér á landi.

Hilmar Jónsson, meðstofnandi markaðstorgs með rafmyntir hér á landi, segir að það megi vera að rafmyntir auðveldi einstaklingum sem hafa ásetning um að fara á svig við gjaldeyrishöft að gera það. „Þú getur auðvitað alltaf tekið bitcoin og gert það sem þú vilt við þau,“ segir Hilmar. Það sé þó vitanlega ekki tilgangurinn með markaðstorgunum, sem munu fara í einu og öllu að lögum.

Það breytir því þó ekki að rafmyntir eru seljanlegar í gegnum internetið en fyrir rafmyntir má kaupa allt sem hugurinn girnist á netinu. Utan þess að vera notaðar til að kaupa ýmsar vörur í gegnum netið er nú einnig hægt að kaupa erlend hlutabréf, afleiður og gjaldeyri með sama hætti, svo eitthvað sé nefnt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.