Ísland hefur auðvitað forskot umfram önnur lönd þar sem megnið af raforku á Íslandi er framleitt með endurnýtanlegum hætti,“ segir Alicia Carrusco, en hún var meðal ræðumanna á vorfundi Landsnets á miðvikudaginn.

Alicia er sérfræðingur í orkustefnu og markaðsmálum og fyrrverandi forstöðumaður hjá Tesla, EMEA og Siemens en starfar nú sem sjálfstæður ráðgjafi. „Það að Ísland vilji því líka nota endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum er mjög jákvætt.“ Þessi breyting er fólki ef til vill sérstaklega hugleikin þessa daga í ljósi þess að svifryksmengun hefur gert verulega vart við sig á höfuðborgarsvæðinu þó svo að rigning gærdagsins hafi slegið á vandann.

Nýta kerfið betur

„Ef þú býrð í borg þá finnurðu strax fyrir því þegar þú skiptir úr dísilolíu eða bensíni yfir í rafmagn. Þetta er eitthvað sem getur gerst mjög hratt eftir því sem rafbílum fjölgar.“ Eðli málsins samkvæmt var flutningskerfi rafmagns til umræðu á fundinum, en Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, dró upp mynd af stöðu flutningskerfis Landsnets á glæru með erindi sínu, þar sem sjá mátti að erfitt eða ómögulegt væri að flytja meira rafmagn á kerfinu. Orkuskipti komi því til með að vera áskorun. Bæði Guðmundur Ingi og Alicia vöktu máls á þeim möguleika að láta raforkuverð vera háð eftirspurn á hverjum tíma. Þannig gæti til dæmis borgað sig að hlaða rafbíla yfir nóttina þegar minna álag er á kerfið.

„Þetta gerir kleift að nýta betur það kerfi sem er þegar til staðar,“ segir Alicia. „Þetta er ekki heildarlausn fyrir kerfið en möguleikinn á þessum sveigjanleika er mjög jákvæður.“ Hún segir alla rafbíla búna snjallhleðslubúnaði, sem gerir kleift að stjórna því hvenær þeir hlaðast. Sumir bílar geta auk þess skilað rafhleðslunni aftur inn á kerfið. Þannig væri hægt að nýta þá sem rafhlöður á hjólum sem hlaðast þegar eftirspurn er lítil en leggja til rafmagn þegar hún er mikil.

„Þetta virkar að sjálfsögðu ekki þannig að þú hringir í Landsnet og spyrð hvort það sé þörf á rafmagni heldur gerist þetta sjálfvirkt þannig að margir bílar sem bjóða fram sína hleðslu eru nýttir á sama tíma og á sama stað til að ná fram bestri nýtingu. Það er að verða mikil nýsköpun og hlutirnir gerast hratt.“ Alicia segir þjóðir Evrópusambandsins vera með evrópskt rafhlöðubandalag í burðarliðunum, ekki ósvipað Airbus, með það að markmiði að þróa enn öflugari rafhlöður en þekkjast. „Þau vilja líka efla evrópskt hagkerfi með því að framleiða evrópskar rafhlöður fyrir evrópskan markað.“

Alicia segir margar þjóðir hafa stigið jákvæð skref til að auka framleiðslu rafmagns með endurnýtanlegum orkugjöfum á borð við sólarrafala á húsþökum. Örframleiðsla sem þessi gæti hérlendis, þar sem raforka er nánast öll framleidd með endurnýtanlegum hætti, létt undir með flutnings- og dreifikerfinu.

„Það eru ýmsir möguleikar til þess á heimilum og í samfélaginu. Þannig væri til dæmis hægt að selja nágranna sínum umframrafmagn og nýta til þess blockchain-tækni. Þetta hefur verið prófað og snýst kannski helst um að sýna fram á að þetta dragi ekki úr raforkuöryggi og að persónuupplýsingar fari ekki á flakk. Síðan er lokahindrunin að löggjafinn geri fólki kleift að selja rafmagn inn á kerfið,“ segir Alicia. „Það er auðvitað þannig að þegar þú setur rafmagn inn á dreifikerfið þá veistu ekkert hvert það fer eða hver notar það.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .