Greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka gera sér mat úr útreikningum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs fyrir febrúarmánuð, sem báðir bankarnir segja vera í samræmi við spár.

Verðbólgan mælist nú, þriðja mánuðinn í röð, vera 1,9% sem er innan verðbólgumarkmiðs, en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,71% í febrúar.

Verðhjöðnun án húsnæðisliðar

Ef húsnæðisverð er tekið út úr vísitölunni nam hækkunin 0,59% en án þess myndi mælast 1,0% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði.

Báðar greiningardeildirnar nefna þó að ýmsir undirliggjandi þættir hafi breyst á annan hátt en þær bjuggust við. Þannig hafi húsgöng, heimilisbúnaður og raftæki hækkað meira en búist var við en flugfargjöld til útlanda minna en búist var við, líklega vegna aukinnar samkeppni í flugi.

Kom hækkun raftækja á óvart

Segir greining Íslandsbanka verðhækkun raftækja sérstaklega koma á óvart, enda langt umfram lækkun þeirra í útsölunum í janúar, sem og að styrking krónunnar ætti að dempa verðhækkunina.

Jafnramt segja þeir föt og skó hafa hækkað óvenjulítið sem þeir rekja til óvenjumikillar verðlækkunar á skóm í febrúar.

Segir greiningardeild Arion banka að verðbólguþróun muni ráðast af því hvort hafi vinningin á næstunni, styrking krónunnar eða hækkandi húsnæðisverð, og Íslandsbanki segir fróðlegt að sjá hvor áhrifin hafi vinninginn.

Húsnæðisverð á landsbyggðinni hækkar

Íslandsbanki nefnir einnig að húsnæðisverð á landsbyggðinni hafi hækkað sérlega mikið, en um 19% undanfarið árið, meðan fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 16% en sérbýli um 14%.

Spá þeir hjá Arion banka því að verðlag hækki um 0,4% í mars, verði óbreytt í apríl en lækki á ný um 0,1% í maí sem þýðir að ársverðbólgan muni standa í 1,2% í maí, en svo taki hún að aukast á ný seinni hluta ársins.

Íslandsbanki segir jafnframt að verðbólga geti togast niður á við ef styrkingarhraði krónunnar haldi áfram, sem fyrst hafi áhrif á vörur með mikinn veltuhraða eins og eldsneyti og matvöru.

Snapchat notkun heldur aftur af verðbólgu

Greiningardeild Arion banka nefnir að póst og símakostnaður hafi haldið aftur af verðbólgu vegna lækkandi verðs á símnotkun af öllu tagi, hlutfallslega við notkun, enda miðist liðurinn við einingaverð.

Segja þeir að verðbólga væri nú yfir verðbólgumarkmiði ef þessi liður hefði þróast í takti við annað verðlag og því megi segja að æði Íslendinga fyrir Snapchat, Instagram, Youtube og öðrum miðlum hafi haldið aftur af verðbólgu.