Ragnar Árnason, professor í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, fær í dag hin árlegu frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar sem Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) veitir .

Í tilkynningu frá SUS vegna þessa segir „að verðlaunin eru venju samkvæmt veitt þeim einstaklingi og samtökum sem hafa, að mati ungra sjálfstæðismanna, barist fyrir frelsishugsjóninni á opinberum vettvangi, óháð stjórnmálaskoðunum eða stjórnmálaþátttöku“.


Í tilkynningunni segir ennfremur:

„Að þessu sinni hefur stjórn SUS ákveðið að veita Dr. Ragnari Árnasyni, prófessor í fiskihagfræði við Háskóla Íslands, og Advice samtökunum frelsisverðlaunin.

Að öðrum ólöstuðum áttu Advice samtökin hvað mestan þátt í því að ólögvörðum og ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave III samninginn svokallaða. Samtökin eru skipuð einstaklingum víðs vegar að úr þjóðfélaginu sem lögðu ómælda vinnu á sig til þess að kynna staðreyndir málsins fyrir þjóðinni. Því hefur stjórn SUS ákveðið að verðlauna Advice samtökin fyrir þeirra framlag í baráttunni gegn því að Icesave kröfunum yrði varpað á skattgreiðendur.

Dr. Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði við HÍ, hefur lengi verið einn ötulasti talsmaður kvótakerfisins á Íslandi. Sjaldan hefur verið vegið jafn hart  að fiskveiðistjórnunarkerfinu en þrátt fyrir hatramma baráttu núverandi stjórnvalda gegn íslenskum sjávarútveg hefur Ragnar staðið vaktina í ræðu og riti, nú síðast með ræðu á sjómannadeginum í Reykjavík.“

„Bæði Advice og Ragnar Árnason eru vel að verðlaunum komin,” segir Ólafur Örn Nielsen, formaður SUS.

„Þrátt fyrir að meirihluti Alþingis hefði samþykkt að varpa meintum Icesave kröfum yfir á skattgreiðendur tók hópur manna sig til og háði mikla og erfiða baráttu sem að lokum skilaði sér í hagkvæmri niðurstöðu fyrir þjóðina.
Að sama skapi hefur Ragnar Árnason háð mikla baráttu í gegnum árin fyrir hinu íslenka fiskveiðistjórnunarkerfi, kerfi sem aðrar þjóðir öfunda okkur af. Á meðan núverandi stjórnvöld heyja harða baráttu gegn íslenskum sjávarútveg, þeirri grein sem skapar hvað mestu verðmætin í þjóðfélaginu í dag, verður barátta Ragnars fyrir hinu hagkvæma kerfi enn mikilvægari. Fáir hafa jafn mikla faglega þekkingu á íslenska fisveiðistjórnunarkerfinu og Ragnar.”

Fyrri verðlaunahafar eru m.a. InDefence samtökin, Andríki, Margrét Pála Ólafsdóttir, Davíð Scheving Thorsteinsson og Viðskiptaráð.”