Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Ragnar Þórisson, sjóðsstjóra og stofnanda vogunarsjóðsins Boreas Capital, til að greiða rétt rúmar 24 milljónir króna og í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna skattsvika. Ragnari var gefið að sök að hafa ekki talið fram 120 milljóna króna fjármagnstekjur árið 2007 vegna tveggja framvirkra skiptasamninga með hlutabréf við MP banka. Skattgreiðslur hefðu átt að nema um tólf milljónum króna.

Sérstakur saksóknari ákærði Ragnar vegna málsins í fyrrahaust og var málið þingfest í október.

„Dómurinn er ofsalega harkalegur. Þessu verður áfrýjað,“ segir Jón Elvar Guðmundsson, lögmaður Ragnars Þórissonar, í viðtali við vb.is . „Efnislega gerist það að Ragnar á í viðskiptum við bankann og nettóniðurstaðan af viðskiptunum tap upp á um 270 þúsund krónur. Í því ljósi er dómurinn ofsalega harkalegur.“

Nokkur mál af mjög svipuðum toga eru fyrir dómstólum. Þar á meðal gegn Bjarna Ármannssyni, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Eiríki Sigurðssyni, stofnanda klukkubúðarinnar 10-11, og Ingvar Vilhjálmsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Kaupþingi. Skattrannsóknarstjóri hefur vísað 14 málum til sérstaks saksóknara þar sem rannsókn hefur leitt í ljós stórfelld undanskot frá skatti í tengslum við afleiðuviðskipti.

Fjallað er um málin í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.