Uppbygging Norðuráls á álveri í Helguvík hefur lengi verið til umræðu en fyrsta skóflustunga fyrir álverinu var tekin árið 2008. Óljóst er hins vegar hvenær það mun rísa þar sem deilur eru um gildandi orkusölusamning á milli Norðuráls og HS Orku. Spurður að því hvenær álver muni rísa við Helguvík segir Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, að niðurstöðu úr gerðardómsmeðferð í máli fyrirtækjanna tveggja sé að vænta á næsta ári. Hann segist bjartsýnn á að álverið verði reist og að fjárfestingin verði arðbær.

„Það sem álfyrirtæki horfa á er auðvitað heildararðsemi fjárfestingarinnar til langs tíma,“ segir Ragnar. „Það gildir um þessa fjárfestingu líkt og allar aðrar fjárfestingar að maður þarf að leggja saman kostnaðarhliðina og áætla tekjurnar. Spurningin er svo hvort ávöxtun er viðunandi að teknu tilliti til áhættu. Við byrjuðum að byggja á Grundartanga árið 1997 og dæmið gekk upp hjá okkur. Fyrri eigandi átti fyrirtækið í sjö ár og seldi það síðan til Century Aluminum. Ég held að þetta hafi gengið upp hjá fyrri eiganda og núverandi eiganda. Við sjáum sömuleið­ is að ef við horfum á afkomuna í orkugeiranum þá er hún mjög góð. Ég ræddi það einmitt á ársfundi Samáls að þarna væri verið að skila tugum milljarða á ári til íslensks samfélags. Þar virðist dæmið líka hafa gengið upp. Er hægt að endurtaka dæmið í Helguvík? Já, ég held það og ég held að það gæti gengið upp fyrir alla aðila. Við þurfum bara að bíða og sjá hvernig úr því vinnst.“

Hvað þarf að gerast til þess að þið hættið alfarið við uppbyggingu álvers í Helguvík?

„Í áliðnaðinum horfum við til áratuga. Það tekur kannski tvö ár að byggja orkumannvirki og álver þannig að það er ekki hægt að vænta tekna fyrr en eftir að minnsta kosti þann tíma. Stundarverðið getur aldrei haft úrslitaáhrif á langtímafjárfestingu sem ætlað er að starfa í marga áratugi,“ segir Ragnar að lokum.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, er í ítarlegu viðtali í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .