Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 , að þar sem að lífeyrissjóðir væru orðnir að stærstu eigendum leigufélaga, húsnæðislána og langstærstu eigendur skráðra félaga á markaði í dag, hafa sjóðirnir beinan hag af hárri leigu, háum vöxtum, hárri álagningu og lægri launum. „Þá spyr maður sig, þurfum við ekki að staldra við að endurskoða kerfið?“ sagði Ragnar Þór.

Hann tók jafnframt fram að það væri hans persónulega skoðun að honum þætti ekki mikill metnaður í lífeyriskerfinu. „[..] að lifa sem þræll alla ævi til þess að hafa það hugsanlega gott eftir að vinnuskyldu líkur,“ sagði Ragnar Þór.

Einnig tekur formaður VR fram að gæði fjárfestinga lífeyrissjóðanna tryggir almenning betur inn í framtíðina en ávöxtunarkrafan. Hann bendir á að lífeyrissjóðir hafi átt verðtryggð skuldabréf í öllum helstu útrásarfyrirtækjum fyrir hrun og að sú fjárfesting hefði öll tapast.