Í ræðu sinni á ársfundi Samáls, samtaka álframleiðenda, fjallaði Ragnar Guðmundsson stjórnarformaður um arðsemi af orkuiðnaði á Íslandi. Setti hann orkuiðnað í samhengi við sjávarútveg og sagði að eftir hundruð ára upbbyggingu í síðarnefnda geiranum væri markaðsverðmæti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja líklega um 600 milljarðar króna.

„Hvað þá með atvinnugrein sem var lítil fyrir 20 árum en er orðin jafnstór og sjávarútvegur? Raunveruleikinn er sá að íslensku orkufyrirtækin eru líklega 500 – 800 milljarða virði. Myndi eitthvert ykkar til dæmis selja Landsvirkjun fyrir minna en 500 milljarða,“ spurði Ragnar.

Ragnar benti á að á ársfundi Landsvikjunar í fyrra hefði komið fram að unnt væri að greiða upp allar skuldir félagsins á rúmum 9 árum, sem sé ótrúlega skammur tími miðað við hve stutt sé síðan ráðist var í stærstu fjárfestingu Íslandssögunnar. Ragnar sagði að þessi árangur þýddi að innan fárra ára gæti Landsvirkjun greitt 30-40 milljarða króna í arð á hverju ári, miðað við óbreytt orkuverð. Til samanburðar væri veiðigjald í sjávarútvegi um 10-15 milljarðar á ári.

Sagði Ragnar að samningar orkufyrirtækjanna við álverin hafi verið þjóðinni hagstæðir, skilað gríðarlega góðri afkomu og þúsundum traustra og vel launaðra starfa.