Lögmaðurinn Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, hdl., LL.M, hefur gengið til liðs við lögmannsstofuna Málþing.

Fram kemur í tilkynningu að Ragnheiður Elfa hefur undanfarin ár stýrt umhverfis- og auðlindaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, ásamt því að sitja í aðalsamninganefnd Íslands vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið og gegna formennsku í samningahópi Íslands um byggða- og sveitarstjórnamál á þeim vettvangi.

Ragnheiður Elfa var um fimm ára skeið í sendiráði Íslands í Brussel en starfsemi þess snýst að langmestu leyti um rekstur EES-samningsins og að gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu. Áður en hún hélt til Brussel starfaði hún á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins og var yfirlögfræðingur umhverfisráðuneytisins.

Þá hefur Ragnheiður Elfa tekið þátt í ýmsum nefndum og sendinefndum á alþjóðavettvangi fyrir Íslands hönd, s.s. að því er varðar umhverfis- og auðlindamál og einnig EES-samstarfið. Ragnheiður Elfa hefur sinnt háskólakennslu, nú síðast við Háskólann á Akureyri um sjávarútvegsstefnu ESB og umhverfis- og orkustefnu ESB.

Sérsvið Ragnheiðar Elfu hjá Málþingi eru umhverfis- og auðlindamál, Evrópuréttur, þjóðaréttur, mannréttindi, byggða- og sveitarstjórnarmál, skipulags- og byggingarmál og stjórnsýsluréttur. Jafnframt sinnir hún allri almennri lögfræðiþjónustu.