Rakel Sölvadóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Skema, hlaut í dag hvatningarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu. Fyrirtækið sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og kennslu í forritun á öllum skólastigum. Þá hefur Skema þróað aðferðafræði sem byggir á rannsóknum á sviði tölvunarfræði, kennslufræði og sálfræði.

Fyrirtækið var stofnað árið 2011 og hefur það staðið fyrir námskeiðum í forritun fyrir börn á aldrinum 7-16 ára.

Fyrirtækið var fyrir ári á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir þau tíu fyrirtækja sem það sagði áhugaverðast að fylgjast með á árinu og taldi það geta slegið í gegn hjá neytendum.