Rakel Sölvadóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Skema, hefur tekið sæti í stjórn Netgíró. Stjórnina skipa nú Andri Valur Hrólfsson, stjórnarformaður, og Skorri Rafn Rafnsson, auk Rakelar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Rakel er með B.Sc. í tölvunarfræði og hefur starfað í hugbúnaðargeiranum frá árinu 1998 við þróun, auk verkefna- og hópstjórnar. Undanfarin misseri hefur hún starfað frá Bandaríkjunum, þar sem móðurfélag Skema, reKode, er starfrækt.

„Það er mikill fengur í að hafa fengið Rakel til liðs við okkur. Hún er ekki aðeins drífandi og frjó í hugsun, hún hefur ætíð lagt áherslu á samfélagslega ábyrgð í sínum störfum og slíkur aðili á vel heima í stjórninni,“ segir Andri Valur Hrólfsson, stjórnarformaður Netgíró.