Hagfræðingurinn James S. Henry sem hélt fyrirlestur um málefni aflandsfélaga í Háskóla Íslands í gær, segist vera að rannsaka samstarf íslensks fyrirtækis við fyrirtæki í eigu mafíunnar í New York

„og tengsl þeirra við SPV-fjármálastrúktúr (e. Special Purpose Vehicle) tengdan Donald Trump. Við þurfum að halda áfram að rannsaka málin,“ segir James S. Henry einn fremsti sérfræðingur heims í aflandsfélögum í Morgunblaðinu í dag .

Sérstakt að við áttum sjálf bankana

Telur hann svigrúm hafa myndast hér á landi til endurbóta í kjölfar hrunsins en það sé sérstakt við Ísland að „þið áttuð bankana sem skipulögðu aflandsviðskiptin. Þið veittuð ykkur því áverkana sjálfir sem er óvenjulegt. Yfirleitt eru alþjóðlegu bankarnir á bakvið svona starfsemi,“ segir James Henry

„Í Bandaríkjunum hafa bankarnir haldið völdum sínum og geta enn haft mikil áhrif á aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Svona er þetta ekki á Íslandi. Hér hafa bankarnir misst mikið af völdum sínum og því hafið þið tækifæri til að setja góðar grundvallarreglur sem eru heildinni til góða en þjóna ekki hagsmunum einstakra fjármálafyrirtækja.“

Vill 1% skatt á nafnleynd

Segir hann eitt mikilvægasta skrefið vera að skrá raunverulegt eignarhald á fyrirtækjum og fasteignum, og nefnir meðal annars að 70% af fasteignum í New York borg séu í eigu óþekktra aðila sem feli sig á bakvið skúffufyrirtæki og nafnleynd.

Það þarf að skrá eignarhald svo við vitum hverjir eigi hvað og hvaða hagsmuna þeir hafi að gæta. Til að ýta á eftir skráningunni væri hægt að setja 1% nafnleyndarskatt ofan á fasteignagjald á eignir þar sem eigendur eru nafnlausir,“ segir Henry