Samtök Atvinnulífsins segja að ef gengið yrði að kröfum flugumferðarstjóra myndi dýrkeypt jafnvægi í kjaramálum landsmanna raskast, en aðra nóttina í röð raskaðist flug á Keflavíkurflugvelli vegna yfirvinnubanns Félags flugumferðarstjóra.

Atlaga að samstöðu á vinnumarkaði

Segir framkvæmdastjóri samtakanna, Þorsteinn Víglundsson, að kröfur flugumferðarstjóra séu langt umfram hækkanir í öðrum kjarasamningum og ástæðan sé einfaldlega að þeir séu í þeirri stöðu að geta knúið þær fram. Segir hann að þær séu atlaga að þeirri samstöðu sem sköpuð var á vinnumarkaði haustið 2015 og fest í sessi með endurskoðun kjarasamninga í upphafi ársins.

Hefðbundið íslenskt höfrungahlaup

Kallar hann sífelldar launahækkanir þar sem hver hópurinn heimtar meiri hækkun en sá sem samdi síðast hefðbundið íslenskt höfrungahlaup sem valdi því að meiri hækkunum á vinnumarkaði skili ekki betri lífskjörum miðað við í nágrannalöndunum.

Segir hann megineinkenni íslenskra kjarasamninga að fámennir hópar með sterkt verkfallsvopn hóta ítrekað aðgerðum til að tryggja sér launahækkanir umfram aðra en SALEK samkomulagið hafi náð víðtækt samkomulag um að bæta lífskjör á Íslandi á grundvelli efnahagslegs stöðugleika.

Því sé mikið í húfi að láta ekki launadeilu við flugumferðarstjóra verða til að stefna stöðugleika á vinnumarkaði í voða, en einnig sé hætta á því að flugumferðarstjórn fyrir svæðið flytjist úr landi enda renni önnur ríki hýrum augum til þessarar ábatasömu starfsemi.