Úrvalsvísitala Nasdaq Iceland lækkaði um 0,94% í 2,2 milljarða viðskiptum dagsins og fór hún niður í 1.757,34 stig. Aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,06% í 3,2 milljarða viðskiptum og er hún komin niður í 1.358,99 stig.

Einungis tvö félög hækkuðu í verði í dag, síðasta viðskiptadag vikunnar, en það voru Skeljungur og Eimskip. Skeljungur hækkaði um 0,27% í 129 milljóna viðskiptum, upp í 7,37 krónur hvert bréf og Eimskipafélagið hækkaði um 0,19% í 68 milljón króna viðskiptum í 262,00 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Nýherja, eða um 2,57% í tiltölulega litlum viðskiptum, eða 11,5 milljón króna viðskiptum og fóru bréfin í 26,50 krónur. Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 415 milljónir króna og lækkuðu bréfin niður um 1,14% í 346,00 krónur.