Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,41% í viðskiptum dagsins og endaði hún í 1.704,37 stigum. Heildarviðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæpum 1,5 milljörðum króna.

Aðalvísitala skuldabréfa stóð nánast í stað, með 0,01% lækkun niður í 1.229,16 stig en viðskiptin námu 3,9 milljörðum króna.

Tryggingamiðstöðin og HB Grandi einu sem hækkuðu

Einu fyrirtækin sem hækkuðu í kauphöllinni í dag voru Tryggingamiðstöðin sem hækkaði um 0,79% í 60 milljón króna viðskiptum og HB Grandi, sem hækkaði um 1,02% í óverulegum, eða tæplega milljón króna viðskiptum.

Fást nú bréf Tryggingamiðstöðvarinnar á 25,40 krónur og HB Granda á 24,85 krónur.

Icelandair og Marel lækkuðu

Mest lækkaði gengi bréfa Icelandair og Marel, eða um 2,39% hvort um sig.

Viðskiptin með bréf Icelandair námu 451 milljón og fæst nú hvert bréf félagsins á 24,50 krónur, og viðskiptin með bréf Mrael námu 210 milljónum og fæst nú hvert bréf félagsins á 245,50 krónur.