Úrvalsvísitala kauphallarinnar lækkaði um 3,54% í dag í rúmlega 4,47 milljarða króna viðskiptum. Mesta velta dagsins var með bréf í Icelandair, en fjárfestar tóku illa í afkomuspá félagsins. Fyrirtækið lækkaði þá í heildina um 8,07% og er gengi bréfanna við lokun því 27,90 krónur.

Úrvalsvísitölufélögin lækkuðu öll. Marel, sem einnig birti ársfjórðungsuppgjör sitt í gær kvöldi, lækkaði um 2,86%. Almennt var uppgjörið gott, en þó mátti sjá nokkra varnagla, sem gætu bent til þess að vöxtur gæti verið minni næstu árin. Eimskipafélagið lækkaði um 2,24% og er gengi bréfanna 262 krónur á hlut. N1 lækkaði um 1,35% og kostar hver hlutur nú 73,10 krónur.

Utan vísitölunnar, voru umtalsverð viðskipti með bréf í Eik fasteignafélag og Vátryggingafélagi Íslands. Eik lækkaði um 1,47% í rúmlega 116 milljón króna viðskiptum. VíS lækkaði um 1,94% og kostar hver hlutur nú 7,60 krónur. Eina félagið sem hækkaði í dag, var Össur, en hækkunin nam 5,88%. Viðskiptin voru þó afar lítil, veltan nam einungis 4 milljónum.

Aðalvísitala skuldabréfa var flöt, en skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,01%. Markaðsvísitala Gamma lækkaði um 0,94%. Hlutabréfavísitala sjóðstýringarfélagsins lækkaði aftur á móti um 3,07%.