*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Innlent 22. október 2018 16:15

Rauður en rólegur dagur í kauphöllinni

Hlutabréfavelta í kauphöllinni nam tæpum hálfum milljarði í dag og úrvalsvísitalan lækkaði um 0,4%.

Ritstjórn
epa

Heildarvelta á aðalmarkaði með hlutabréf nam 477 milljónum í dag og úrvalsvísitalan, OMXI8, lækkaði um 0,36%.

Gengi hlutabréfa nær allra félaga lækkaði, en Arion banki hækkaði, eitt skráðra félaga, um 0,25% í 36 milljón króna viðskiptum.

Mest lækkaði Icelandair, um 1,87%, en í aðeins 24 milljón króna viðskiptum, en þar á eftir kemur TM með 1,05% lækkun í enn minni viðskiptum, 15 milljónum. Önnur félög lækkuðu um undir 1%.

Mest velta var með bréf Marel, sem lækkaði um 0,06% í 109 milljón króna viðskiptum, og Sýnar, sem lækkaði um 0,17% í 107 milljón króna viðskiptum. Þar á eftir koma 58 milljón króna viðskipti með bréf Heimavalla, sem höfðu engin áhrif á hlutabréfaverð félagsins, en viðskipti með önnur félög námu undir 50 milljónum.

Stikkorð: hlutabréf Kauphöll