Verkefnisstjórn um breytingar og umbætur á skattkerfinu hefur skilað af sér 27 tillögum um breytingar á skattkerfinu í heild sinni í nýútkominni skýrslu.

Almennar skattkerfisbreytingar

Skiptast tillögurnar í þrjá flokka, almenna skatta þar sem kemur meðal annars fram að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga hafi aukist um 22% að nafnvirði frá árinu 2013, og þær hafi numið 128 milljörðum króna árið 2015.

Að helmingur skattgreiðenda sé með tekjur á bilinu 1,2 - 5,7 milljónir króna, en í tillögunum er gert ráð fyrir að hærra skattþrep miði við 7,8 milljónir króna, sem nái þá einungis til 10% skattgreiðenda.

Meðal tillagnanna er að einungis verði eitt skattþrep virðisaukaskatts og miðar skýrslan við 19%, en jafnframt að undanþágum verði fækkað til að draga úr flækjustigi og hvata til undanskota.

Einnig kemur fram að tekjur af tryggingagjaldi hafi aukist um 28% að nafnvirði frá árinu 2013, og það hafi numið rúmlega 78 milljörðum króna árið 2015. Lagt er til að tryggingagjaldið hækki og lækki í öfugu hlutfalli við hagsveifluna, með þaki og gólfum.

Umhverfis- og auðlindagjöld hækkuð

Í öðrum flokki er lagt til að umhverfis og auðlindagjöld verði hækkuð og tekjurnar notaðar til að lækka aðra skatta. Auðlindagreinar séu 22% af framleiðslu hagkerfisins og eigi gjöldin að endurspegla arðsemi nýtingarinnar.

Þar er gert ráð fyrir innheimta bílastæðagjalda verði auðvelduð, að gistnináttaskatturinn yrði hækkaður og að langtímasamningar verði innleiddir í innheimtu á veiðigjöldum og orkusköttum, auk hækkunar kolefnisgjalds.

Einföldun skattskila

Loks í þriðja flokki eru lögð til einfaldari skattskil og hagkvæmara eftirlit, þar með talið upptaka ESB reglugerða um virðisaukaskatt vegna sölu yfir netið á milli landa.

„Ljóst er að umbætur og aukin hagkvæmni í skattinnheimtu hafa umtalsverð áhrif á hegðun og lífskjör einstaklinga en ríflega 4 af hverjum 10 krónum renna til hins opinbera í formi skatta. Við höfðum viss markmið að leiðarljósi í okkar vinnu en þrátt fyrir þau þá veita tillögurnar áfram fullt svigrúm fyrir breytileg samfélagsleg markmið löggjafans,“ segir Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem fór fyrir verkefnastjórninni, í fréttatilkynningu.

Samsköttun hætt, persónuafsláttur breytilegur og raunávöxtun skattlögð

Í fyrsta kaflanum eru lagðar fram tíu tillögur um bætta almenna skatta. Þær eru í stórum dráttum þær að allir telji fram sem einstaklingar, það er að samsköttun verði hætt, að barnabætur fylgi barni, að vaxtabætur verði lagðar niður og þess í stað verði sparnaði beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónuafslætti.

Lagðar eru fram tillögur um breytingar á skattþrepum, að þær yrðu 25% og 43% sem og breytingar á persónuafslátti, þannig að persónuafslátturinn byrji í 0 og hækki krónu fyrir krónu að 970 þúsund krónum en fyrir hærri tekjur sé persónuafslátturinn 1.250 þúsund sem skerðist um 29% af tekjum, sameiningu þrepa virðisaukaskatts og undanþágum sé fækkað.

Jafnframt er lagt fram að fjármagnstekjuskattur beinist að raunávöxtun í stað nafnávöxtunar, að tryggingagjald verði sveiflujafnað og takmarkanir séu settar á svokalla þunna eiginfjármögnun, það er frádrátt vaxtagjalda. Einnig að eftirgjöf skulda myndi ekki skattskyldu og loks að samræma skattlagningu samlagshlutafélaga við önnur félagaform.