*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 17. febrúar 2017 17:27

Raunávöxtun neikvæð um 1,2%

Lífeyrissjóður verzlunarmanna skilaði 0,9% nafnávöxtun, sem þýðir neikvæða raunávöxtun um 1,2%. Tryggingafræðileg staða sjóðsins fer úr 8,7% í 4,2%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna nema nú 602 milljörðum króna en ávöxtun mismunandi eignaflokka sjóðsins hafa verið mjög mismunandi.

Styrking krónunnar hefur neikvæð áhrif

Vegna mikillar styrkingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum var ávöxtun á erlendu verðbréfaeign sjóðsins neikvæð um sem nemur 8%, sem svarar til 9,7% neikvæðrar raunávöxtunar.

Ef horft er á ávöxtun þessa hluta eignasafnsins í Bandaríkjadölum er hún þó jákvæð um 5,5%. Ávöxtun af innlendri hlutabréfaeign sjóðsins, sem nema um 22% af eignum sjóðsins, hefur verið neikvæð um 0,1%, sem svarar til um 2% neikvæðrar raunávöxtunar.

Innlend skuldabréfaeign sjóðsins hefur þó skilað ágætri ávöxtun, eða 6,6% sem svarar til 4,4% raunávöxtunar. Ef horft er til ávöxtunar síðustu fimm ára þá nemur hún 6,4% en síðustu tíu og tuttug ár var hún 1,2% og 4,4%.

25 milljarðar inn en 12 milljarðar út

Tryggingafræðileg staða sjóðsins hefur lækkað úr 8,7% árið 2015 niður í 4,2% árið í fyrra, en það skýrist af neikvæðri ávöxtun annars vegar og hins vegar af hækkandi lífaldri sjóðsfélaga.

Fjöldi greiðandi sjóðsfélaga á árinu var 50 þúsund og námu iðgjaldagreiðslur þeirra 25 milljörðum króna. Sjóðurinn greiddi um 15 þúsund lífeyrisþegum rúma 12 milljarða króna í lífeyri úr sameignardeild á síðata ári, svo mánaðarlegar greiðslur sjóðsins nema rúmum milljarði króna.

Hafa lífeyrisgreiðslurnar hækkað um 10,6& milli ára en lífeyrisþegum fjölgaði um 7,6% á sama tíma.