*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 3. janúar 2018 16:33

Rautt nýár í kauphöllinni

Einungis eitt félag, Reitir, hækkaði í virði í kauphöllinni í dag, en HB Grandi og Skeljungur lækkuðu mest í byrjun nýs árs.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,64% í tæplega 1,5 milljarða viðskiptum dagsins og fór hún niður í 1.622,93 stig. Hins vegar hækkaði Aðalvísitala skuldabréfa um 0,05% upp í 1.362,44 stig í rétt rúmlega 3 milljarða viðskiptum.

Einungis eitt félag hækkaði í virði í kauphöllinni í dag, annan viðskiptadag ársins, en það var Reitir fasteignafélag sem hækkaði um 0,23% í 322 milljón króna viðskiptum. Það voru jafnframt mestu viðskiptin með bréf eins félags en bréfin fóru upp í 86,00 krónur.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa HB Granda eða um 2,71% í 36 milljón króna viðskiptum og fór gengið niður í 34,05 krónur. Næst mest lækkun var síðan á gengi bréfa Skeljungs, sem lækkaði um 1,84% niður í 6,41 krónu í 53 milljón króna viðskiptum.