Einungis fjögur fyrirtæki hækkuðu í virði í kauphöllinni í dag en lækkun úrvalsvísitölunnar nam þó einungis 0,24%, og stendur hún nú í 1.629,35 stigum. Nam heildarumfang viðskiptanna 1,5 milljörðum króna, og var fjöldi þeirra 73.

Mest hækkun var á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða 1,09% og er það nú 231,50 krónur eftir 172 milljóna króna viðskipti.
Næst mest hækkun var á gengi bréfa Reginn, eða um 0,50%, og fæst hvert bréf félagsins nú á 20,20 krónur. Umfang viðskiptanna nam 60 milljónum króna.

Mest lækkun var á sama tíma á gengi bréfa Sýnar, eða um 1,40%, og fóru bréfin niður í 42,20 krónur hvert í litlum viðskiptum þó eða fyrir 11 milljónir króna. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Eikar fasteignafélags, eða 1,39% og er gengi þeirra nú 8,17 krónur eftir 117 milljóna króna viðskipti.

Krónan veiktist gagnvart helstu viðskiptamyntum í viðskiptum dagsins, en evran styrktist um 1,01% og fæst hún nú á 139,74 krónur, og Bandaríkjadalur styrktist um 0,89% og fæst hann nú á 122,50 krónur.