Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 1.866 milljónir króna eftir skatta og afskriftir á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2015. Þetta er aukning milli ára um 58%. EBITDA fyrirtækisins var 2.645 milljónir króna, en það er 21% hækkun miðað við sama tímabil 2014.

Arðsemi félagsins nam 6,5% á fjórðungnum og 6,4% á fyrstu níu mánuðunum.

Fjárfestingareignir félagsins námu 61.594 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Eiginfjárhlutfall var 31%. Raunávöxtun eiginfjár var 13% á ársgrundvelli.

Vaxtaberandi skuldir voru 38.647 milljónir króna, en sem hlutfall af fjárfestingareign félagsins eru þær 63%.

Handbært fé frá rekstri nam 1.555 milljónum á tímabilinu. Handbært fé í lok tímabilsins var 686 milljónir króna.