Hagnaður Regins eftir tekjuskatt jókst um 65% frá fyrra ári og nam hann rétt rúmum 2 milljörðum króna.

Rekstrartekjur Regins námu 3.222 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Nam vöxtur leigutekna frá fyrra ári 26% og voru  þær 2.946 milljónir króna samanlagt.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) nam 2.126 milljónum króna, sem er aukning um 25% frá fyrra ári.

Bókfært virði eigna nærri 80 milljarðar

Matsbreyting eigna á tímabilinu nam 1.869 milljónum króna en bókfært virði fjárfestingareigna í lok þess nam 79 milljörðum króna.

Í lok tímabilsins nam fjöldi eigna þess 130 og heildarfermetrafjöldinn var um 319 þúsund. Er útleiguhlutfallið yfir 97,5% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Eru stærstu eignir Regins verslunarmiðstöðin Smáralind og Egilshöllin.

H&M á leið í Smáralindina

Eru miklar breytingar fyrirhugaðar í Smáralind, til að mynda kemur verslunarkeðjan H&M inn í verslunarmiðstöðina og verslanasamsetningin mun breytast með endurskipulögðum rýmum.

Jafnframt mun félagið koma að frekari uppbyggingu sunnan Smáralindar á næstu árum.

Skuldir námu tæpum 48 milljörðum króna

Handbært fé frá rekstri nam 924 milljónum, en vaxtaberandi skuldir jukust úr 39.474 milljónum króna í árslok 2015 í 47.767 milljónir króna við lok tímabilsins.

Eiginfjárhlutfallið er 34% og hagnaður á hvern hlut í félaginu nam 1,34 en var 0,84 fyrir sama tímabil í fyrra, en fjöldi hluthafa þann 30. júní síðastliðinn voru 559. Félagið er skráð í Kauphöllina.