Hagnaður fasteignafélagsins Regins dróst saman á milli áranna 2017 og 2016 að því er kemur fram í uppgjöri félagsins. Hagnaður á árinu 2017 nam 3.789 milljónum króna samanborið við 4.243 milljónir í fyrra.

Rekstrartekjur félagsins jukust þó á milli ára en árið 2017 voru þær 7.124 milljónir samanborið við 6.643 milljónir árið 2016. Mestu munar um matsbreytingu fjárfestingareigna en þær hækkuðu um 2.928 milljónir í ár samanborið við 3.745 milljónir í fyrra.

Hagnaður á hlut nemur því 2,41 krónu í ár.

Eigið fé Regins í árslok 2017 var 34.652 milljónir og eykst um rúmlega fimm milljarða milli ára. Eiginfjárhlutfall félagins var því 34,8%.

Handbært fé Regins jókst um 455 milljónir á milli ára en í árslok 2017 nam það 1.343 milljónum króna.

Á fjórða ársfjórðungi var rekstrarhagnaður Regins 1.826 milljónir króna sem er nokkuð minna en á þriðja ársfjórðungi þegar hagnaður félagsins nam 2.313 milljónum króna.