Reginn hf. og Fastengi ehf. hafa gert samkomulag um að ganga til viðræðna um kaup á sex milljarða fasteignasafni í eigu síðarnefnda félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fastengi ehf. er dótturfélag Miðengis ehf., sem er félag í 100% eigu Íslandsbanka. Ef af samningum verður þá er um að ræða kaup á rúmlega 80 fasteignum og stærð safnsins er um 62.000 fermetrar.

Tilboð Regins sem sett er fram í samkomulaginu er 5.914 m.kr. eða að meðaltali um 95 þús.kr./m2 . Gert er ráð fyrir að núverandi leigutekjur séu um 440 m.kr á ári. Leigutekjur á safninu miðað við leigða fermetra, en útleiguhlutfallið er 50%, er því tæplega 1.200 kr./m2

„Eignasafnið þarf töluverða endurskipulagningu og úrvinnslu. Gert er ráð fyrir að næstu 3 árin fari í að hámarka arðsemi eignasafnsins m.a. með því að koma óleigðum rýmum í leigu. Ennfremur er líklegt að einhverjar fasteignir verði seldar út úr safninu. Mikil sérþekking og afkastageta er innan Regins á verkefnum sem þessum,“ segir í tilkynningu.

Skipting á fasteignum eftir atvinnuflokkum er þannig að 59% er iðnaðar- og geymsluhúsnæði, 24% er skrifstofuhúsnæði, verslunarhúsnæði er 14% og íþróttar og afþreyingarhúsnæði 3%.