Atvinnuvegaráðuneytið hefur birt drög að reglugerð um aðstoðarmenn fasteignasala, en beðið hefur verið eftir reglugerðinni síðan ný lög um fasteignasala tóku gildi í lok júní.

Í nýjum lögum var gerð sú grundvallarbreyting að einungis fasteignasalar hafa heimild að sinna öllum helstu störfum er varða milligöngu um fasteignaviðskipti, sölufulltrúar sem hafa lengi starfað á fasteignasölum var því gert óheimilt að sinna mörgum störfum sem þeir höfðu áður gert.

Í nýjum reglugerðardrögum er fasteignasala heimilt að fela aðstoðamönnum sínum tiltekin verkefni, en meðal þeirra eru:

  • Útvegun allra nauðsynlegra gagna er varða eign sem tekin hefur verið til sölumeðferðar.
  • Annast um erindi og vörslu gagna, s.s. að fara með og sækja skjöl til lánastofnana og embætta og annast skjalavistun og bakvinnslu.
  • Veita almennar upplýsingar til viðskipatvina úr söluyfirliti, án þess að ráðgjöf komi til.
  • Vinna drög að auglýsingum og markaðssetningu fasteignar fyrir fasteignasala.
  • Önnur verkefni sem falla utan þeirra starfa sem löggilding tekur til og fasteignasala ber sjálfum að sinna.