Þenslueinkenni íbúðamarkaðarins eru mörg um þessar mundir að mati Greiningar Íslandsbanka. Í nýrri greiningu þeirra nefna þeir að verð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 1,7% í mars samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. „Mánaðarhækkun íbúðaverðs hefur nú verið yfir einu prósentustigi í átta mánuði samfleytt en slíkt hefur ekki gerst síðan útlánaþensla olli mikilli verðhækkun á þessum markaði á árunum 2004-2005. Í heild hefur íbúðaverð hækkað um 17,8% yfir síðastliðna tólf mánuði, en svo mikil hækkun hefur ekki mælst fyrir tólf mánaða tímabil síðan á fyrri hluta árs 2006,“ segir í greiningu bankans sem má lesa hér.

Greining Íslandsbanka gerir ráð við því að raunverð íbúa nái sögulegu hámarki næsta haust. „Raunverð íbúðarhúsnæðis á landinu öllu er nú einungis 4,5% lægra en það var þegar það fór hæst í síðustu uppsveiflu. M.v. ganginn á íbúðamarkaðinum má reikna með því að raunverðið fari yfir það hámark næsta haust og verði þá í sögulegu hámarki. Hefur raunverð húsnæðis nú hækkað um tæplega 45% frá því að það stóð lægst eftir efnahagsáfallið 2008,“ segir í greiningunni.

Aukning nýbygginga

Íbúðarverð hefur haldið áfram að hækka umfram byggingarkostnað undanfarið. Nemur hækkun byggingarkostnaðar þannig einungis 1,3% yfir síðastliðna tólf mánuði og hefur íbúðarverð hækkar um 17,8% á sama tíma. Greining Íslandsbanka telur að þessi þróun sé hvati til aukinna nýbygginga og gefa nýbirtar tölur Hagstofunnar vísbendingu um kipp á því sviði eftir lognmollu síðastliðin ár.

Áhyggjufullur seðlabankastjóri

Í ræðu á ársfundi Seðlabanka Íslands sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að vaxandi áhyggjur væru á aðstæðunum á fasteignamarkaði og til þess kunni að koma á næstunni að tiltæk þjóðhagsvarúðartæki verði virkjuð til að draga úr áhættu sem þeim tengist.

„Ræddi Már ekki frekar við hvaða tæki þar væri átt, en benda má á að í lögum um fasteignalán nr. 118/2016, sem samþykkt voru 20. október 2016 og koma til framkvæmda 1. apríl 2017, er kafli sem fjallar um heimildir FME til að setja, að fengnu áliti fjármálastöðugleikaráðs, hámark veðsetningarhlutfalls (á bilinu 60-90%) og/eða hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns eða greiðslubyrðar þess í hlutfalli við tekjur neytanda. Verði þessu beitt gæti það dregið úr spurn eftir íbúðarhúsnæði og stemmt stigu við hækkun íbúðaverðs,“ segir í greiningunni.