„Virkur leigumarkaður sem bíður upp á langtíma – sem og skammtíma leigu er nauðsynlegur og er það mín trú að nýtt kerfi muni hjálpa verulega svo það geti orðið,“ er haft eftir Stefáni Vagni Stefánssyni formanni byggingaráðs Skagafjarðar í fréttatilkynningu.

Húsnæðissjálfeignarstofnunin Skagfirskar leiguíbúðir hses, sem stofnuð er af Sveitarfélagi Skagafjarðar sótti um og fékk úthlutað stofnframlögum að upphæð tæpum 50 milljónum króna til bygginga tveggja fjölbýlishúsa með alls 8 íbúðum, sem fyrirhugað er að reisa á Sauðárkróki. Er þar um að ræða tvær 3ja herbergja íbúðir og sex 4ra herbergja íbúðir.

Að danskri fyrirmynd

Íbúðalánasjóður tilkynnti um niðurstöðu síðari úthlutunar stofnframlaga árið 2016 þann 6. apríl sl. Er þar um að ræða framlög til kaupa eða bygginga á hagkvæmum byggingum, svokölluðum leiguheimilum, sem er nýtt og byltingarkennt kerfi að danskri fyrirmynd sem gerir meðaltekjufólki kleift að komast í langtímaleigu.

„Langvarnadi húsnæðisskortur hefur verið hamlandi þáttur í mörg ár og fólk hefur flutt í burtu vegna ótryggrar leigu eða vegna þess að ekkert leiguhúsnæði er að fá,“ segir Stefán Vagn Stefánsson formaður byggingaráðs Skagafjarðar.

„Því er það mjög gleðilegt að sjá að nú eru einstaklingar, fyrirtæki og húsnæðissamvinnufélög að fara að byggja tugi íbúða á Sauðárkróki sem við höfum væntingar til að muni leysa úr þeim vanda sem uppi hefur verið að stórum hluta. Virkur leigumarkaður sem bíður upp á langtíma – sem og skammtíma leigu er nauðsynlegur og er það mín trú að nýtt kerfi muni hjálpa verulega svo það geti orðið.“

Uppsafnaður húsnæðisskortur

Stefán segir það ákveðið heilbrigðisvottorð á samfélagið ef einstaklingar og fyrirtæki ákveða að byggja, hvort sem eru íbúðir, iðnaðar- eða skrifstofuhúsnæði. „Langvarandi húsnæðisskortur hefur verið á svæðinu í mörg ár og mikil uppsöfnuð þörf eftir íbúðarhúsnæði,“ segir Stefán.

„Nú er svo komið að áform eru uppi um byggingu um 40 íbúða og einbýlishúsa á Sauðárkróki, allar lóðir að verða búnar og horfa þarf til byggingar á nýju íbúðarhverfi.“