Terry Jester, stjórnarformaður Silicor Materials, segir að áform bandaríska fyrirtækisins séu óbreytt, þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ákveðið að hægja á uppbyggingu sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Þetta sagði hún í samtali við fréttastofu RÚV.

Áður hefur komið fram að Silicor Material ákvað að hægja á uppbyggingunni vegna tafa á fjármögnun og vegna mikilla kostnaðarhækkana á Íslandi. Í fréttatilkynningu sagði stjórnarformaðurinn að það væru vonbrigði fyrir Silicor að þurfa að hægja á undirbúningnum. Fyrirtækið þarf að safna um 100 milljörðum króna fyrir verksmiðjunni.

Síðastliðinn febrúar fjallaði Viðskiptablaðið um að nokkur óvissa væri uppi um áform Silicor Materials. Þá kom fram að Þróunarbanki Þýskalands KfW,  sem stendur að baki 60% lánsfjármögnunar sólarkísilverksmiðju Silicor Materials, gerir stífar kröfur um hverjir mega fjárfesta. Krafa þýska bankans var sú að iðnaðarfjárfestar komi að verkefninu, en staðan á hrávörumarkaði er þannig að fátt er um fína drætti á þeim markaði. Þetta tafði fjármögnun verkefnisins.