„Creditinfo hf. hefur unnið greiningu Framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 og hefur fyrirtækjum fjölgað ár frá ári að undanskildu þessu ári,“ segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins, sem veitti í gær viðurkenningar vegna framúrskarandi fyrirtækja .

„Að þessu sinni hurfu 150 fyrirtæki af listanum þar sem þau skiluðu ekki ársreikningi á réttum tíma en það skilyrði er í samræmi við ný lög um ársreikninga.

Meðaltal eigna 14 milljarðar

112 ný fyrirtæki bættust á listann og var meðaltalsarðsemi eigin fjár þeirra 28,06%. Reitir fasteignafélag hf. er efst þeirra fyrirtækja sem koma ný á listann.

Þar á eftir koma Félagsbústaðir hf., Hagar verslanir hf., Alcoa Fjarðaál sf., Hvalur hf., Eskja hf. og AKSO ehf.

Meðaltalsarðsemi eigin fjár stórra fyrirtækja á listanum var 23%, meðaleiginfjárhlutfall 51% og meðaltal eigna var um 14 milljarðar króna. Afkoma stórra fyrirtækja er að meðaltali um 1 milljarður króna í hagnað.

138 milljóna meðaltal hjá meðalstórum fyrirtækjum

Meðalstór fyrirtæki voru að meðaltali með 26% arðsemi eigin fjár, eiginfjárhlutfallið var 58% og eignir upp á 468 milljónir króna. Lítil fyrirtæki voru að meðaltali með 63% eiginfjárhlutfall, 29% arðsemi eigin fjár og eignir upp á 138 milljónir króna.

Samkvæmt greiningu Creditinfo hefur dregið talsvert úr vanskilum félaga á undanförnum árum, sem þó hafa staðið í stað frá árinu 2015.

Hæst vanskilahlutfall í gististaða- og veitingarekstri

Sá atvinnuvegur sem hefur hæsta vanskilahlutfallið er  gististaða- og veitingarekstur og hefur svo verið allt frá árinu 2009, en þá var hæsta vanskilahlutfallið í byggingastarfsemi.

Heilbrigðis- og félagsþjónusta er sú atvinnugrein sem hefur lægsta vanskilahlutfallið.

Skilyrði til að teljast framúrskarandi

Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra.

Félögin þurfa að hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára og á réttum tíma í samræmi við ársreikningalög. Enn fremur þurfa félögin að vera í einum af þremur sterkustu lánshæfisflokkum Creditinfo og félögin þurfa að sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þrjú ár.

Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð auk þess sem eignir þurfa að vera 80 milljónir króna eða meira þrjú ár í röð.“